Skilmálar* Ég hef lesið og samþykki skilmála
Almennir viðskiptaskilmálar Íslenskrar orkumiðlunar ehf.
1. Inngangur
Almennir viðskiptaskilmálar Íslenskrar orkumiðlunar ehf. (hér eftir ÍOM) gilda í öllum viðskiptum ÍOM og viðskiptavina þess. Þeir hafa að geyma almenn ákvæði um réttindi og skyldur beggja aðila á hverjum tíma fyrir sig.
Undir viðskiptaskilmála þessa falla öll viðskipti, tilboð og samningar ÍOM við viðskiptavini um kaup á raforku, hvort sem slíkir samningar eru gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti. Greiðsla fyrsta rafmagnsreiknings er staðfesting á viðskiptasambandi og gildi viðskiptaskilmála þessara. Í ákveðnum tilvikum gilda þó sérstakir skilmálar í samningum við ÍOM og ganga þeir framar hinum almennum skilmálum, sem gilda þá annars til fyllingar hinum sérstöku skilmálum.
Raforkulög nr. 65/2003 gilda um sölu ÍOM á raforku til viðskiptavina og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004 með síðari breytingum. Viðskiptaskilmálar þessir teljast staðlaðir samningar um viðskipti með raforku milli ÍOM og almenns notanda samkvæmt 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1050/2004 og taka eingöngu til sölu á raforku.
ÍOM áskilur sér rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum einhliða. Breyting á skilmálum tekur gildi við birtingu á heimasíðu ÍOM.
2. Upplýsingar um raforkunotkun
Með gerð raforkusölusamnings við ÍOM eða með sérstakri heimild samþykkir viðskiptavinur að veita ÍOM umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar frá viðkomandi dreifikerfi. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, núverandi söluaðila raforku að hluta til, dreifiveitutaxta, áætlaðri ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestri, mæliaðferð, stöðu mælis og stafafjölda. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann.
Raforkunotkun viðskiptavinar er notuð til að ákvarða áætlun um orkunotkun. Sé um að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt raforku er ÍOM heimilt að áætla notkun hans með hliðsjón af sambærilegri notkun.
3. Verð og greiðsluskilmálar
Ef ekki er um annað samið þá fer verð ÍOM fyrir sölu á raforku til almennra notenda eftir gildandi verðskrá ÍOM hverju sinni. Verðskrána er að finna á heimasíðu ÍOM en auk þessa birtist verðið á reikningum frá ÍOM. ÍOM innheimtir enn fremur skatta og gjöld vegna raforkunotkunar samkvæmt gildandi löggjöf.
Rafmagnsreikningur er sendur viðskiptavinum mánaðarlega vegna raforkunotkunar. ÍOM áskilur sér rétt til þess að innheimta greiðslugjald vegna reikninga sem sendir eru til viðskiptavina.
Gjalddagi er 10. hvers mánaðar eða fyrsta virka dag þar á eftir. Eindagi reiknings er 10 dögum síðar.
Dráttarvextir reiknast af viðskiptaskuldinni frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
4. Nýr notandi
Þegar viðskiptavinur skiptir um söluaðila með gerð raforkusölusamnings við ÍOM þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 9. kafla Netmála Landsnets hf., sbr. B6 skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn. Segir m.a. í skilmálunum að skeyti um skipti á sölufyrirtæki þurfi að berast dreifiveitu fyrir 1. dag mánaðar eigi skipti á sölufyrirtæki að taka gildi næstkomandi mánaðamót.
ÍOM áskilur sér rétt að synja nýjum aðila um afhendingu á raforku vegna m.a. fyrri vanskila, úrskurðar um gjaldþrot eða stöðu á vanskilaskrá.
5. Uppsögn samnings og riftun
Raforkusölusamningar ÍOM og viðskiptavina eru ótímabundnir nema um annað sé samið. Báðum aðilum samningsins er heimilt að segja upp raforkusölusamningnum með 3 mánaða fyrirvara, nema um annað sé sérstaklega samið, og tekur uppsögnin gildi 1. næsta mánaðar frá tilkynningu þar um. Raforkusölusamningi milli heimilisnotenda og ÍOM er heimilt að segja upp með a.m.k. 1 mánaðar fyrirvara.
ÍOM er heimilt, í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1050/2004, að rifta raforkusölusamningi við viðskiptavin greiði hann ekki reikning í kjölfar innheimtuaðgerða,
6. Þagnarskylda og upplýsingaöryggi
Samningur á milli ÍOM og viðskiptavinar er trúnaðarmál og skal því aðeins dreift til þeirra sem hafa með framkvæmd hans að gera og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er.
ÍOM framfylgir lögum nr. 77/200 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og varðveitir upplýsingar á öruggan og tryggan hátt og miðlar ekki upplýsingum sem skráðar hafa verið í ofangreindum tilgangi til þriðja aðila án samþykkis viðskiptavinar eða í kjölfar dómsúrskurðar.
7. Persónuvernd
ÍOM hefur sett sér reglu um meðferð upplýsinga til að tryggja að farið sé með persónuupplýsingar sem og aðrar upplýsingar um viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila í samræmi við lög um persónuvernd, sem og önnur lög, reglur og tilmæli sem eru í gildi á hverjum tíma. Reglan tekur til persónuupplýsinga hvort sem er á rafrænu og/eða á pappírsformi.
ÍOM vinnur með persónuupplýsingar sem viðskiptavinur gefur sjálfur s.s. við upphaf viðskipta. Viðskiptavinir gefa þá upp almennar persónuupplýsingar s.s. nafn, kennitölu og heimilisfang. Heimildir ÍOM til vinnslu upplýsinganna byggja einkum á ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd er varðar samþykki hins skráða fyrir vinnslu, nauðsynjar til að framkvæma samning við viðskiptavin og lagaskyldu sem hvílir á félaginu. ÍOM deilir ekki persónuupplýsingum í öðrum tilgangi en þeim sem nauðsyn krefur til að félagið geti uppfyllt skyldur sínar og samninga eða í öðrum lögmætum tilgangi.
Aðgangur að persónuupplýsingum um viðskiptavini er takmarkaður við það starfsfólk, sem nauðsynlega þarf slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar. Starfsfólk er upplýst og meðvitað um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga sem þeir hafa aðgang að. Trúnaður og þagnarskylda þeirra gildir áfram þótt látið sé af störfum. Að öðru leyti en kveðið er á um hér að framan fer um meðferð persónuupplýsinga skv. lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og ráðstöfunum sem innleiddar eru af hálfu ÍOM á grundvelli þeirra
8. Framsal réttinda
Framsal réttinda eða aðrar skuldbindingar eru óheimilar án skriflegs samþykkis gagnaðila.
9. Óviðráðanleg atvik
Hvorki ÍOM né viðskiptavinir verða vegna þessara skilmála, samninga, tilboða o.s.frv. krafðir um bætur ef óviðráðanleg atvik (force majure), sem sannarlega eru ekki á valdi samningsaðila, svo sem styrjöld, eldsvoði, náttúruhamfarir, breytingum stjórnvalda á lögum og reglum eða annað þess háttar kemur í veg fyrir efndir.
10. Úrlausn deilumála
Komi upp ágreiningur út af viðskiptaskilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Rísi mál út af viðskiptaskilmálum þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.